Kolkuós í Skagafirði

Njóttu lífsins á einstökum stað!

Sagan

Kolbeinsárós er forn verslunarstaður innarlega við austanverðan Skagafjörð. Þar var búið á 20. öld og standa húsin norðan undir grónum melbakka. Gengur þar fram tangi sem endar í klöppum milli sjávarins og Kolbeinsáróss sem er sameiginlegt útfall Kolku og Hjaltadalsár. Kolbeinsárós var hið löggilta nafn staðarins en á seinni tímum hefur styttingin Kolkuós oftast verið notuð. Kolbeinsárós var aðalverslunarhöfn Skagfirðinga þegar á landnámsöld. Kemur staðurinn fyrst við sögu í Landnámu í frásögn af kaupmönnum sem töpuðu frá sér hryssunni Flugu sem síðar varð fræg að ágætum og markaði upphaf sögu hestamennsku í Skagafirði. Kolkuos-01

Kolbeinsáróss er síðan getið af og til sem aðalhafnar og verslunarstaðar Skagfirðinga fram yfir siðaskipti. Þangað var skemmst sjávargatan frá biskupsstólnum á Hólum og þaðan gengu skip þau er stóllinn átti í förum á miðöldum. Vafasamt er að hafskip hafi nokkurn tímann siglt upp í sjálfan ósinn því að í honum er klöpp sem hindrar skipaferð eins og ósnum er nú háttað.
Annars er klöppin ármegin á tanganum á parti eins og náttúruleg bryggja. En aðstæður hafa samt skapað hafnarskilyrði í Kolkuósi.

Um 300 metra vestur frá tanganum rís Elínarhólminn, allhár klapparhólmi, og frá tanganum út að hólmanum er neðansjávarrif sem enn brýtur ölduna og kann að hafa staðið að einhverju leyti upp úr sjó á landnámsöld. Þessar aðstæður veittu ákjósanlegt skjól fyrir norðanáttum. Nokkru fyrir 1600 er Hofsós kominn til sem verslunarstaður og hverfur Kolbeinsárós þá úr sögunni um sinn. Sennilega hafa náttúrlegar aðstæður breyst svo að staðurinn hefur ekki lengur þótt notandi sem hafskipahöfn. Þar hafa að líkindum staðið vörugeymslur og talið er að nokkru fyrir siðaskipti hafi bjálkakirkja eða bænhús verið reist af kaupmönnum í Kolkuósi, hin eina sinnar gerðar á landinu. Talið er að hún hafi staðið uppi á melendanum vestan við klaufina sem gengur ofan af melnum niður að húsunum. Þannig var Kolbeinsárós glugginn að samskiptum Hólastaðar og Norðlendinga við útlönd á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og tengdi þá við erlenda menningarstrauma. Hlé varð á verslun í Kolbeinsárósi til 1881 að þar fékkst löggilt verslunarhöfn. Hófst þá sigling lausakaupmanna á höfnina en bráðlega fengu kaupmenn á Sauðárkróki útmældar þar lóðir, reistu sölubúðir og höfðu útibú. Fyrir aldamótin 1900 voru fjögur verslunarhús í Kolkuósi í eigu kaupmanna á Sauðárkróki. Kolkuos-08

Föst búseta hófst ekki í Kolkuósi fyrr en 1891 er Tómas Ísleiksson söðlasmiður settist þar að með konu sinni, Guðrúnu Jóelsdóttur ljósmóður, og börnum. Þau fóru til Vesturheims 1903. Árið 1901 fluttust Hartmann Ásgrímsson og Kristín Símonardóttir í Kolkuós og byrjuðu þar verslun. Hófst þá mikið uppgangstímabil í Kolkuósi. Árið 1903 var byggt þar verslunarhús, sem stóð fram yfir 1940, og sama ár neðri hæð íbúðarhúss en efri hæðin ári síðar, eða 1904. Það hús stendur enn og verður senn hafist handa um endurbyggingu þess. Jón Björnsson smiður og síðar bóndi á Ljótsstöðum byggði þessi hús eða var yfirsmiður. Árið 1913 byggði Hartmann sláturhús og ári síðar yfirbyggða rétt fyrir sláturféð, hina fyrstu í Skagafirði.

Hestarnir

Kolkuos-Hestar4Kolkuós er eitt þekktasta nafn í sögu hrossaræktar á Íslandi. Ein elsta frásögn um hross á Íslandi er í Landnámu, þar greinir frá því þegar skip sem hlaðið var kvikfé kom í Kolbeinsárós (þ.e. Kolkuós) Þórir dúfunef keypti þar unghross sem hann kallaði Flugu og þótti “allra hrossa skjótast”. Eignaðist sú hryssa síðan hestfolald sem hét Eiðfaxi og varð víðfrægur.

Hrossarækt  á Kolkuósi á upphaf sitt á fyrstu árum 20. aldar í ræktun Hartmanns Ásgrímssonar bónda og kaupmanns sem bjó í Kolkuósi frá 1900 til 1948. Strax í upphafi varð hrossastofninn í Kolkuósi landsþekktur fyrir mikla kosti og nokkur af farsælustu kynbótahrossum landsins á fyrri hluta 20. aldar voru þaðan. Má þar sérstaklega minnast á Hörð 112, sem var sá stóðhestur sem mest mótaði Kolkuósstofninn á þeim tíma. Undir handleiðslu Sigurmons, sonar Hartmanns, hélt ræktunin áfram og með enn meira umfangi en fyrr.

Lengst náði hann í ræktuninni með stóðhestinum Herði 591 sem var á árunum milli 1960 til 1980 einhver þekktasti og um leið umdeildasti stóðhestur landsins.

Þegar Sigurmon brá búi árið 1984 tvístraðist hrossastofninn um allt land og síðan hefur ekki verið  skipulögð hrossarækt í Kolkuósi. Óhætt er  að segja að í Kolkuósi hafi verið ein merkilegasta og um leið best heppnaða stofnræktun á síðustu öld og áhrifa hennar gætir mjög víða, hérlendis sem og erlendis. Segja má að sú ræktun sem stunduð er  á Hólum í Hjaltadal eigi grunn í kynbótahrossum sem ættuð eru frá Kolkuósi.

Það er mat forstöðumanns Söguseturs íslenska hestsins að uppbygging af því tagi sem fyrirhuguð er í Kolkuósi, og ræktun hrossa af Kolkuóskyni á staðnum, sé afar þarft og gott verkefni. Það er til þess fallið að að efla ferðaþjónustu og atvinnusköpun í héraðinu, og ætti að verða til framdráttar  fyrir hestamennsku og hrossarækt almennt.

Uppbygging

Á undanförnum árum hefur verið unnið hörðum höndum að uppbyggingu íbúðarhússins í Kolkuósi.
Húsið er nú full frágengið og tilbúið til útleigu.

Gistingin

Í júní 2014 var gistiþjónusta opnuð í gamla íbúðarhúsinu á Kolkuósi. Húsið hefur verið endurbyggt og var sérstök áhersla lögð á að halda upprunalegu svipmóti hússins að utan. Innan hefur það verið innréttað sem lítið lúxushótel með 4 tveggja manna herbergjum með baði, setustofa, borðstofa og fullbúið eldhús.

Húsið verður leigt út í skammtímaleigu, stök herbergi eða allt húsið eftir þörfum. Herbergin eru rúmgóð, björt og vel búin og er baðherbergi inná hverju herbergi. Morgunverður fylgir gistingunni og er innifalinn í verðinu.

   

 

Þjónusta

Kolkuós er vel staðsettur fyrir miðju norðurlands svo auðvelt er að nota staðinn sem náttstað og fara skoðunarferðir um norðurland allt til Mývatns í austri og vestur um Húnavatnssýslur. Aðeins 20 mínútna akstur er til Sauðárkróks þar sem er öflug verslun og hverskonar þjónusta. Að heimsækja þann sögufræga stað Hóla í Hjaltadal tekur um 15 mínútur og jafn langan tíma tekur að aka til Hofsóss en þar má ma. finna eina vinsælustu sundlaug landsins, Veitingastofuna Sólvík og Vesturfarasetrið. Hestaleigur eru í grenndinni, sjóstöng og eyjaferðir fugla og selaskoðun gönguferðir og náttúru skoðun.

Náttúra og umhverfi
Einstök náttúrufegurð er á Kolkuósi, húsið stendur í skjóli hárrar melöldu í suðri, með sjóinn í vestri og silungsveiðiána Kolku í norðri. Fögur fjallasýn, útsýni út Skagafjörð til Drangeyjar og Þórðarhöfða gefur staðnum glæsilegt yfirbragð og gestum ómælda ánægju. Lítil eyja Elínarhólmi er skammt frá landi framan við ósa Kolku þar er æðarvarp og dúntekja.

Fuglalíf
Mikið fuglalíf er á Kolkuósi þar má t.d. finna grágæs og heiðagæs, fjölmargar andategundir, æðarfugl, álftir, tjald, stelk, óðinshana, sandlóu, jaðrakan, sendling, hrossagauk, kríu, skarf og margar tegundir af máfum, þúfutittlinga, sólskríkju, skógarþröst, rjúpu, maríuerlu,  steindepill, músarindill, heiðlóu, spóa, kjóa, branduglu og fálka.

Staðsetning

Kolkuós er staðsett við austanverðan Skagafjörð miðja vegu á milli Hofsós og Sauðárkróks.
U.þ.b. 15 mínútur tekur að keyra þangað.

kolkuos-stadsetning2

Hafa samband

Ekki hika við að hafa samband við okkur til að fá nánari upplýsingar um það sem við bjóðum uppá.

Gsm: 861 3474  –  Email: kolkuos@kolkuos.is